Um Iðavelli
Iðavellir eru æfinga- og keppnissvæði Skotíþróttafélags Hafnarfjarðar, staðsett í Kapelluhrauni rétt sunnan við Álverið í Straumsvík og ofan við kvartmílubrautina.
Félaginu var úthlutað þessu svæði haustið 1997 undir starfsemi sína sem var um svipað leiti og aðstaða félagsins í Óbrynnishólum var tekin niður.
Svæðið sem er í jaðri hraunnáms var á þeim tíma eingöngu hraunmulningur án nokkurs gróðurs. Þá um haustið var hafist handa við að ryðja upp hljóð og -öryggismön sem afmarkar svæðið í allar áttir. Um svipað leiti fór fram teikni og hönnunarvinna á svæðinu en það verk vann þá nýr félagsmaður SÍH, arkitektinn Marteinn Huntingdon Williams. Uppbygging á svæðinu hófst síðan um mitt sumar 1998 með miklum efnisflutningum, byggingu sökkla undir turna og hús ásamt niðurlagningu á steypu í palla og gangbrautir á milli þeirra.
Haustið 1998 var völlurinn full formaður með brautum, pöllum, vélarhúsum, geymslugámum og félagsaðstöðu og stóð hann þannig um veturinn án þess að vera tekinn í notkun.
Snemma vorið eftir var hafist handa við að klára það sem upp á vantaði og var ákveðið að ekki yrði hleypt af einu einasta skoti fyrr en allt væri tilbúið og völlurinn yrði vígður formlega.
Að öðrum ólöstuðum voru þeir Hreimur Garðarsson og Stefán Geir Stefánsson helstu hvata og framkvæmdastjórar verksins frá upphafi til enda. En eftir því sem verkinu miðaði var hægt að dreifa verkum á fleiri hendur og þegar upp var staðið höfðu allmargir lagt hönd á plóginn.
Af frumkvæði þeirra félaga urði mikil umskipti á svæðinu sem á skömmum tíma breyttist úr því að vera ljótar hraunnámur í það að vera uppgróinn sælureitur með grasflötum, göngustígum, trjágróðri og snyrtilega máluðum byggingum.
Völlurinn var síðan opnaður formlega með viðhöfn laugardaginn 5. júní 1999 með því að bæjarstjórinn í Hafnarfirði klippti á borða í íslensku fánalitunum og hleypti þannig fyrstu sex valinkunnum félögum SÍH inná völlinn þar sem þeir sýndu gestum getu sína í skotfimi.
Mikill gleðskapur með tilheyrandi veitingum í mat og drykk var að þeirri sýningu lokinni og áttu félagsmenn og gestir góðar stundir fram eftir kvöldi á Iðavöllum, nýjum, fallegum og notalegum skotvelli félagsins.